Smíði á frumgerð íslenska ofurjeppans ÍSAR TorVeg hófst nú í ágúst. Ari Arnórsson, stofnandi ÍSAR, segir að jeppinn sé hugsaður fyrir tvo aðskilda markaði.

„Annars vegar atvinnumarkað og þá er ég að vísa til ferðaþjónustu, björgunarsveita og veitufyrirtækja. Hins vegar markað fyrir fjársterka einstaklinga," segir Ari.

Auðugir einstaklingar í Mið-Austurlöndum hafa þegar haft samband við Jaka ehf. með það í huga að kaupa íslenska ofurjeppann. Ari segir að þeim erindum hafi verið vel tekið en þó hafi hann ekki viljað gera neina samninga.

„Við viljum passa okkur að koma ekki fram með neinar fullyrðingar nema þær standist. Fyrst þurfum við að smíða frumgerðina og prófa hana. Ef það gengur allt vel þá getum við sagt við þessa menn að núna geti þeir pantað bíl og borgað. Það er margbúið að stinga upp á því við mig að fara þarna út og gera samninga, fá fullt af peningum, en ég hef engan áhuga á því fyrr en ég veit að ég get staðið við samningana og afhent þeim „Königsegg " fyrir eyðimörkina."

Samlíkingin við sænska ofurbílaframleiðandann Königsegg er engin tilviljun því Jakar eru  í samstarfi við mann, sem starfaði hjá sænska fyrirtækinu við að þjónusta kaupendur í Mið-Austurlöndum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð