Fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016, sem nú stendur yfir í Hörpu, hlaut ofurkæling fyrirtækisins 3X technology á Ísafirði. Þetta kemur fram í frétt Fiskifrétta .

Keppti hugmyndin við 7 aðrar hugmyndir um verðlaunin sem veitt eru fyrir að sameina best nýsköpunarkraft, frumleika og raunhæfni sem leiðir til virðisauka, aukinnar sjálfbærni eða bættrar ímyndar íslensk sjávarútvegs.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um , snýst tækni fyrirtækisins um að kæla fiskinn niður í á milli -1,5 til 0,7 °C, strax eftir að hann er veiddur eða slátrað, og er þá innan við 20% af vatnsinnihaldi fisksins fryst.

Ískristallamyndun nær ekki að skemma frumurnar

Verða þá engar skemmdir á frumum vegna ískristallamyndunar og lengist geymsluþol afurðarinnar. Sparast notkun á ís sem eykur tækifæri til að flytja fiskinn, sérstaklega í flugi.

„Það er að sjálfsögðu alltaf gaman að fá svona verðlaun. Þetta er mikil viðurkenning á starfi okkar síðastliðin 3 ár,“ segir Albert Marzelíus Högnason í samtali við bb.is á Ísafirði.

„Við erum búin að vinna að rannsókn og þróun á aðferðum sem nota ofurkælingu ásamt Noregi, Danmörku og Finnlandi, en við fengum stóran styrk í Noregi fyrir þremur árum til að halda áfram og erum sum sé að ljúka rannsóknarferli núna.“