Og fjarskipti hafa tryggt sér allt hlutafé í færeyska fjarskiptafyrirtækinu Kalli p/f og ræður því yfir öllum hlutum í félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

?Rekstur Kalls á þriðja ársfjórðungi gekk vel og var í samræmi við áætlanir," segir í tilkynningu frá Og fjarskiptum.

Félagið keypti 68% hlut í Kalli í júlí síðastliðnum fyrir 440 milljónir, segir í Vegvísi Landsbankans. Fyrir átti Og fjarskipti 14,1% hlut í Kalli og nú hefur félagið tryggt sér allt hlutafé í færsyska fyrirtækinu.

Í Vegvísi segir að Kall hafi um 15% markaðshlutdeild á færeyska fjarskiptamarkaðnum og er áætluð velta félagsins á þessu ári 650 milljónir króna, miðað við 540 milljónir árið 2004. Áætlaður hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) er 130 milljónir á þessu ári.

Nánar verður greint frá kaupunum á fjárfestingakynningu Og fjarskipta sem haldin verður að loknum hluthafafundi 3. nóvember, Sunnusal, Radisson SAS Hótel Sögu, kl. 17:00.