Sá sem hagnast mest á vinsældum Rockstar Supernova er Bretinn Mark Burnett, en það er fyrirtæki hans, the Mark Burnett Productions, (MBP) sem framleiðir Rockstar. Hugmyndin að þáttunum kom auk þess upprunalega frá Mark Burnett, en hann er ókrýndur konungur og guðfaðir raunveruleikasjónvarpsins í þeirri mynd sem við þekkjum það í dag.

Burnett byrjaði árið 2000 að framleiða þættina Survivor sem eru vinsælustu raunveruleikaþættir allra tíma. Alls hafa verið framleiddar 16 seríur af Survivor sem hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga af ýmsu tagi, auk þess að skila skapara sínum milljörðum í vasann í hagnað. Úr smiðju Burnett koma einnig þættirnir: The Contender og Restaurant sem hafa verið sýndir á Skjá einum og The Aprentice með Donald Trump sem hafa verið sýndir á Stöð tvö.

Mark Burnett hefur komið ár sinni vel fyrir borð og fyrirtæki hans MBP er í raun það stærsta í heiminum sem sérhæfir sig í þessari gerð af sjónvarpsefni. Mark Burnett er fyrir löngu kominn í þá stöðu að þurfa ekki lengur að framleiða þætti frekar en hann hefur áhuga á. Sem dæmi um þann auð sem hann hefur safnað að sér á vel heppnuðum ferli keypti hann sér hús í Hollywoodhæðum nýlega fyrir 25 milljónir Bandaríkjadala. ( 1,7 milljarður króna). Burnett var árið 2004 á lista Time tímaritsins yfir 100 áhrifamestu einstaklinga í heimi og á árlegum lista Entertainment Weekly yfir valdamesta fólkið í skemmtanabransanum samfellt undanfarin fjögur ár.

Mark Burnett er fæddur í Bretland árið 1960 og starfaði sem fallhlífarstökkshermaður í sérsveitum breska hersins áður en hann fór í sjónvarpsbransann. Burnett var á leiðinni til Mið-Ameríku til að sinna leynilegum sérsveitarverkefnum þegar að hann ákvað að snúa algjörlega við blaðinu og flytja til Bandaríkjanna. Hann settist að í Los Angeles árið 1982 og starfaði meðal annars sem barnfóstra í Beverly Hills hæðunum fyrir fræga og ríka fólkið og seldi boli á hinni rómuðu Venice strönd. Árið 1995 byrjaði hann svo að framleiða þættina Eco-Challenga sem voru svipaðir og Amazing Race en hugmyndina fékk Burnett eftir að hafa sjálfur tekið þátt í liðakeppni í Frakklandi sem er með svipuðu sniði. Þættirnir voru sýndir á MTV sjónvarpsstöðinni og nuta talsverðra vinsælda. Það var þó ekki fyrr en árið 2000 sem að hjólin fóru að snúast fyrir alvöru. Fyrsta serían af Survivor sló öll met og 50 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á lokaþátt fyrstu seríunnar. Það er áhorfendamet sem hvorki hefur verið jafnað né slegið síðan. Á einni nóttu gerði Survivor Burnett að heimsfrægum milljarðamæringi og raunveruleikasjónvarpið var komið inn á kortið til að vera. Síðan hefur Burnett framleitt hvern flugeldaþáttinn af öðrum en í hverri viku horfa um það bil 40 milljónir manna um allan heim á þætti sem hann hefur framleitt.

Um þessar mundir er Burnett að fást við að framleiða nýja raunveruleikaþáttröð í samvinnu við kvikmyndagúrúinn Steven Spielberg. Þátturinn sem mun nefnast On the Lot sver sig í ætt við the Aprentice en þar getum við fylgst með 16 einstaklingum keppa að því að fá draumastarf innan Dream Works kvikmyndasamsteypu Spielbergs. Aldrei að vita nema að það verði Íslendingur í þeim hópi?