*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 26. mars 2020 17:27

Og þá var kátt í höllinni

Úrvalsvísitalan hækkaði um tæp 5% á grænum degi í Kauphöllinni í dag. Heildarviðskipti námu 1,7 milljörðum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Miklar hækkanir voru á skráðum hlutabréfamarkaði í dag, úrvalsvísitalan hækkaði um 4,94% og heildarviðskipti námu 1,7 milljörðum króna. Vísitalan hefur nú hækkað um tæp 10% frá því á þriðjudagsmorgun, en stendur enn fimmtungi lægra en fyrir rúmum mánuði þegar hún hóf að lækka verulega.

Marel, Origo og TM leiddu hækkanir dagsins með 6,99%, 6,47% og 6,20% hækkanir í 525, 130 og 123 milljóna króna viðskiptum.

Flest önnur félög hækkuðu, en þrjú stóðu í stað og fjögur lækkuðu, öll þó óverulega.

Að vanda voru mest viðskipti með bréf Marel, en þar á eftir komu bréf VÍS, sem skiptu um hendur fyrir 245 milljónir króna og luku deginum 1,12% hærri en við opnun. Bréf Arion banka vermdu svo þriðja sætið með 3,77% hækkun í 171 milljón króna viðskiptum.

Stikkorð: hlutabréf Kauphöll