Og Vodafone hefur kært Símann til samkeppnisyfirvalda fyrir að misnota ráðaandi stöðu sína á ADSL markaði, segir í fréttatilkynningu frá Og Vodafone.

Þar segir að Síminn ráði yfir svonefndu grunnneti og þarf því að setja upp ADSL á símalínu notandans áður en önnur fjarskiptafyrirtæki eða þjónustuaðilar geta veitt notandanum aðgang að netinu.

?Viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja þurfa hins vegar yfirleitt að bíða í nokkra daga eftir ADSL tengingum, en viðskiptavinir Símans eru í helmingi tilvika afgreiddir samdægurs," segir í tilkynningu Og Vodafone.

Fyrirtækið segir að samkvæmt formlegri könnun Póst- og fjarskiptastofnunar á tengitíma, virðist þessi háttsemi Símans vera kerfisbundin, því vinnulag fyrirtækisins er beinlínis til þess fallið að mismuna viðskiptavinum. Þetta birtist ekki aðeins þegar um nýjar ADSL tengingar er að ræða, heldur gerist það sama þegar símaþjónusta er flutt á milli staða eða opnað er fyrir lokuð númer.

?Síminn brýtur þannig einnig á rétti sinna eigin viðskiptavina. Ef viðskiptavinur Símans, sem kýs að hafa internetþjónustu hjá Og Vodafone, lendir í vanskilum við Símann og númeri hans er lokað er ADSL tengingin rofin, án þess að Og Vodafone fái sérstaka tilkynningu þar um. Greiði viðskiptavinurinn skuld sína við Símann er ADSL tengingunni ekki komið á umsvifalaust, heldur þarf að fara í gegnum pöntunarferli að nýju, með tilheyrandi töfum og tilkostnaði," segir Og Vodafone.

?Og Vodafone hefur ítrekað óskað eftir því við Símann að framangreindu verklagi verði breytt og að fyrirtækið taki upp eðlilega viðskiptahætti. Því hefur ekki verið sinnt," segir Dóra Sif Tynes, lögfræðingur Og Vodafone

Dóra segir því að Og Vodafone telji því rétt að samkeppniseftirlit beiti Símann viðurlögum samkvæmt IX. kafla samkeppnislaga og einnig verði tekið til skoðunar hvort ekki sé ástæða til að skilja heildsölu Símans frá öðrum þáttum í rekstri fyrirtækisins, bæði hvað varðar fjárhag og stjórnun.

Í tilkynningu frá Og Vodafone segir að í krafti grunnnets og búnaðar, sem þjóðin hefur byggt upp í gegnum árin, dæmir Síminn stór svæði á landsbyggðinni til einokunar í ADSL málum, í stað þess að íbúar þar eigi val um þjónustuaðila.

?Síminn neitar öðrum internetþjónustufyrirtækjum um að fá svokallaðan bitastraumsaðgang á fámennari svæðum sem er eins konar heildsala á tengingum. Án slíks aðgangs þurfa þjónustuveiturnar að leggja út í mikinn og óþarfan stofnkostnað á hverjum stað með því að koma upp búnaði sem þegar er til staðar og var greitt fyrir á meðan Síminn var í ríkiseigu," segir í tilkynningunni.