321 milljóna króna hagnaður varð á rekstri Og fjarskipta hf. (Og Vodafone og 365 prent- og ljósvakamiðlar) eftir tekjuskatt á fyrri helmingi ársins 2005 samanborið við 222 milljóna króna hagnað miðað á tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 401 m.kr. á fyrri árshelmingi en var 270 m.kr. ári fyrr. Handbært fé frá rekstri án fjármagnsliða nam 1.247 m.kr.

Rekstrartekjur Og fjarskipta hf námu 7.011 m.kr fyrstu 6 mánuði ársins samanborið við 3.288 m.kr. á sama tímabili í fyrra og jukust um 113% milli tímabila.

Framlegð félagsins var 2.769 m.kr. á fyrri helmingi ársins 2005 og jókst hún um 1.320 m.kr. milli ára.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 1.480 m.kr. fyrstu 6 mánuði ársins. EBITDA var 861 m.kr. af reglulegri starfssemi fyrstu 6 mánuðina í fyrra, því er um að ræða 72% aukningu milli tímabila. EBITDA hlutfall af heildarveltu nam um 21% fyrstu 6 mánuði ársins 2005.

Eiginfjárstaða Og fjarskipta hf. er sterk. Eigið fé félagsins nam 7.887 m.kr. í lok júní og hefur aukist um 358 m.kr. frá áramótum. Eiginfjárhlutfall er 37,1%. Veltufjárhlutfall var 0,92 í lok tímabilsins samanborið við 0,66 um áramót.

49% tekjuaukning hjá prentmiðlunum

?Rekstur Og fjarskipta hf. hefur gengið vel fyrstu 6 mánuði ársins og er í mjög góðu samræmi við áætlanir. Ef miðað er við að tekjur 365 ljósvaka- og prentmiðla séu taldar með fyrstu 6 mánuði ársins 2004 þá er tekjuvöxtur samstæðunnar um 18% fyrstu 6 mánuði ársins 2005. Sérlega ánægjulegt er að um 49% tekjuaukning hefur orðið hjá 365 prentmiðlum. Þá hafa aðrar tekjustoðir samstæðunnar, ljósvakamiðlar og fjarskiptahluti, einnig skilað góðum vexti,? segir Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og fjarskipta hf.

Eiríkur segir að mikill kraftur einkenni rekstur Og fjarskipta hf; samstæðan hafi komið fram með margar vörur og þjónustuframboð hafi einnig aukist á tímabilinu. ?Samstæðan hefur ýtt úr vör mörgum nýjum verkefnum í ljósvaka- og prentmiðlum og í umbreytt íslenskum fjölmiðlaheimi með stöðugum nýjungum. Má þar nefna Sirkus, sem er samheiti yfir fjölmiðla fyrir ungt fólk, Markaðinn, sem er nýtt viðskiptablað Fréttablaðsins og VefTV, sem er gagnvirkur miðill á Vísir.is. Mikill hraði og þróun hafa einkennt rekstur Og fjarskipta hf fyrstu sex mánuði ársins. Á sama tíma hefur samstæðan staðist áætlanir sínar og vel það.?

Eiríkur segir að eitt af þeim verkefnum sem hafi gengið afar vel sé Og1, fjarskiptaþjónusta fyrir heimili. ?Um 8 þúsund heimili skráð sig í Og1 á einungis fjórum mánuðum sem er langt yfir þeim áætlunum sem gerðar voru í upphafi,? segir Eiríkur. Hann segir athyglisvert að stór hluti skráninganna séu nýir áskrifendur. ?Þessi niðurstaða er einstaklega ánægjuleg, ekki síst í ljósi þess að nýir viðskiptavinir eru talsvert fleiri en við gerðum ráð fyrir.?

Afkoma

Afkoma Og fjarskipta hf á fyrri helmingi ársins 2005 er vel í takt við áætlanir félagsins, en 401 m.kr. hagnaður varð af rekstri samstæðunnar fyrir reiknaðan tekjuskatt. Tekjuskattur af hagnaði tímabilsins kemur ekki til greiðslu vegna uppsafnaðs skattalegs taps frá fyrri árum.