Dótturfélag Dagsbrúnar Og fjarskipti ehf. (Og Vodafone) hefur gert samning við alþjóðlega farsímafélagið Vodafone Group um nánara samstarf og samnýtingu vörumerkis, segir í tilkynningu. Og Vodafone mun því hér eftir heita Vodafone á Íslandi og verða vörur og þjónusta fyrirtækisins markaðsett undir vörumerki Vodafone.

Þetta er í fyrsta skipti sem samstarfsfyrirtæki Vodafone Group fær leyfi til þess að nota nafn og merki Vodafone án þess að vera í eigu samstæðunnar. Í kjölfar hins nýja samstarfssamnings mun Vodafone á Íslandi fyrr geta boðið viðskiptavinum sínum vörur og þjónustu Vodafone Group hefur þróað og markaðsett erlendis. Íslendingar í útlöndum og ferðamenn á Íslandi eiga auk þess von á greiðari aðgangi að neti og þjónustu Vodafone og vörunýjungum.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi, segir að viðurkenningin sem fólgin er í samningnum sé bein afleiðing af þeim miklu kröfum sem íslenskir símnotendur gera um þjónustu og tækni. ?Með þessu samkomulagi er íslenskum notendum tryggð betri þjónusta, betra samband og hagstæðara verð. Íslendingar er löngu hættir að láta landamæri stöðva sig og greiðari aðgangur að neti Vodafone á heimsvísu á eftir að lækka símreikninginn erlendis verulega sem kemur sér vel fyrir ferðaglaða Íslendinga, hvort sem ferðast er í vinnu eða í fríi."

Mathias Jungemann, framkvæmdastjóri hjá Vodafone Group, sagðist vera mjög ánægður með að Og Vodafone sé orðið að Vodafone á Íslandi í kjölfar samningsins. ?Að okkar mati er íslenski markaðurinn framsækinn og símnotendur þar kröfuharðir og vel að sér í tæknimálum. Vodafone á Íslandi hefur sýnt það og sannað að þeir kunna sitt fag þegar kemur að markaðsetningu og innleiðingu á nýjungum Vodafone hérlendis. Þeir hafa öðlast fullt traust okkar sem sýnir sig í því að Íslendingar fá fyrstir þjóða leyfi til þess að nota Vodafone nafnið eitt og sér. Það eru mikil meðmæli."