Hæstiréttur vísaði í dag frá máli sem félagið Euro Refund Group North á Íslandi (Tax Free) höfðaði. Héraðsdómur hafði áður fellt úr gildi úrskurð Samkeppniseftirlitsins um ógildingu kaupa Valitors og Tax Free. Ákvörðun eftirlitsins er frá byrjun árs 2009. Með niðurstöðu Hæstaréttar stendur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, og áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði staðfest.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. Samkeppniseftirlitið taldi kaup Valitors á félaginu fela í sér brot á samkeppnislögum, þar sem starfsemi fyrirtækjanna væri nátengd. „ Um væri að ræða samruna þar sem skapast gæti mikill möguleiki, geta og hvati til útilokunar keppinauta á mörkuðum fyrir greiðslukortastarfsemi, posaleigu, endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna og svokölluðum gjaldeyrisumsnúningi. Í því síðastnefnda felst þjónusta við erlenda ferðamenn um uppgjör viðskipta með kreditkortum í erlendum gjaldmiðli. Samruninn var því talinn fela í sér alvarlegar samkeppnishömlur,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Málinu var skotið til áfrýjunarnefndar, sem staðfesti niðurstöðu eftirlitsins. Þá fór það fyrir héraðsdóms, sem taldi ósannað að samruninn myndi raska samkeppni. Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Hæstaréttar, sem vísaði málinu frá dómi. Ákvörðun eftirlitsins stendur því.