Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá hópmálsókn þar sem farið var fram á að starfsleyfi Arnarlax á sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði yrði ógilt. Stofnað var málsóknarfélag til að höfða málið, en aðilar þess voru meðal annars veiðirétthafar, Veiðifélagið Laxár á Ásum og landeigendur sem töldu sig verða fyrir sjónmengun af sjókvíum Arnarlax.

Töldu stefnendur að stækkun laxeldis Arnarlax hf. úr 3.000 í 10.000 tonna á ársframleiðslu á eldislaxi muni hafa veruleg og óafturkræf áhrif á alla villta laxastofna í íslenskum ám og fóru því fram á að starfsleyfi Arnarlax yrði fellt úr gildi.

Í dómnum kemur fram að hagsmunir þeirra sem stóðu að málsókninni hefðu ekki verið nægjanlega einsleitir til þess að reka málið málsóknarfélag, þó ekki væri útilokað að einstaka aðilarnir að málsókninni gætu átt lögvarða hagsmuni af því að fá starfsleyfi Arnarlax ógilt.