Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi máli laxveiðiréttarhafa á Austurlandi gegn Löxum fiskeldi og Matvælastofnun (MAST). Forsendurnar fyrir niðurstöðunni eru hins vegar ekki þær sömu. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi fella úrskurð Landsréttar úr gildi og láta réttinn taka málið til efnismeðferðar.

Stefnandi málsins var málssóknarfélag sem samanstóð af Veiðifélagi Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélagi Selár, Veiðifélagi Breiðdæla og Veiðifélagi Vesturdalsár. Fóru félögin fram á það að rekstrarleyfi, sem Fiskistofa veitti Löxum til laxeldis í sjókví í Reyðarfirði, yrði ógilt með dómi.

Í héraði var gerð krafa um frávísun málsins en henni hafnað. Að efnismeðferð lokinni var komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að sýkna Laxa og MAST. Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem vísaði málinu frá á þeim grunni að hagsmunir málsins væri ekki veiðifélaganna sjálfra heldur félagsmanna í þeim. Landsréttur þurfti að vísu að kveða úrskurð sinn upp tvisvar því sá fyrri hafði verið ómerktur af Hæstarétti vegna réttarfarsannmarka.

Í dómi Hæstaréttar sagði að hagsmunir til nýtingu laxveiðihlunninda væru vissulega félagsmanna veiðifélaga en það girti ekki fyrir að „veiðifélög geti í skjóli umboðs sótt fyrir dómstólum kröfur sem lúta að veiðirétti félagsmanna sinna og þeir hafa lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn dómstóla um“. Veiðifélögum væri því heimilt að nýta sér það réttarfarshagræði að stofna málssóknarfélag um kröfu sína.

„Samkvæmt málatilbúnaði [veiðifélaganna] er tilgangur málsóknar [þeirra] að koma í veg fyrir starfsemi af því tagi, sem varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. stundar, í því skyni að vernda náttúrulega stofna í íslenskum laxveiðiám. Grundvöllur málsóknarinnar varðar þannig ekki lögmæti tiltekinnar stjórnvaldsákvörðunar, heldur miðar hann að því að dómstólar taki afstöðu til þess hagsmunamats sem fram kemur í lögum [um fiskeldi],“ segir í forsendum Hæstaréttar. Um lögspurningu væri að ræða sem andstæð væri lögum um meðferð einkamála.

Dómstólar ekki krafðir svara um framtíðina

Veiðifélögin byggðu einnig á því að þó þau hefðu enn ekki orðið fyrir tjóni vegna starfsemi Laxa þá myndu þeir „að öllum líkindum verða fyrir tjóni á ókomnum árum“.

„Dómstólar verða almennt ekki krafðir svara við því hvað kunni að gerast í framtíðinni, heldur verður sakarefni máls að vera þannig vaxið að úrlausn um það hafi raunhæft gildi fyrir réttarstöðu aðila, [...]. Í ljósi hinnar almennu reglu um lögvarða hagsmuni fær þessu í engu breytt þótt [veiðifélögin] hafi klætt málið í þann búning að krefjast ógildingar umrædds starfsleyfis í stað viðurkenningar á bótaskyldu sem hinir raunverulegu hagsmunir hans af málsókninni felast í. Óumdeilt er í málinu að félagsmenn sóknaraðila hafa ekki orðið fyrir tjóni vegna starfseminnar í Reyðarfirði en til þess að fullnægt sé lagaskilyrðum um lögvarða hagsmuni [...] verður sóknaraðili að sýna fram á eða gera líklegt að sú sé raunin en það hefur hann ekki gert. Hvort tjón muni hljótast af völdum starfseminnar í Reyðarfirði í framtíðinni, þannig að fullnægt sé lagaskilyrðum um lögvarða hagsmuni, er ógjörningur að segja til um,“ segir í dómi meirihluta Hæstaréttar. Málinu var því vísað frá dómi.

Einn dómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði í málinu. Taldi hann dómstóla verða að fara farlega í það að vísa máli frá dómi af þeim sökum að það skipti ekki máli fyrir stöðu aðila að lögum að fá dóm um efnið.

„[Telja veiðifélögin] að ekki hafi verið löglega staðið að umræddri [leyfisveitingu] og að hún brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra sem að honum standa. [Hafa þau] lagt fram ýmis gögn til stuðnings hagsmunum sínum af málarekstrinum sem ekki verða talin svo veigalítil að augljóst skuli telja að ekkert raunhæft gildi hafi fyrir hann að fá efnisdóm um kröfu sína,“ segir í niðurlagi sératkvæðisins.