„Árið 1991 var ég stýrimaður á bát í Grindavík sem við sigldum til Gdynia í Póllandi til breytinga. Þegar við fórum þangað aftur til að sækja bátinn eftir breytingarnar kom konan mín með og við fengum tækifæri til að verja tveimur vikum þar,“ segir Eyþór Björnsson fiskistofustjóri.

„Gdynia var okkur framandi, landið nýlega laust undan oki austantjaldsins og Lada, Volga og pólskur Fíat voru algengustu bílarnir sem flestir voru komnir af léttasta skeiði. Verðlag var mjög hagstætt fyrir okkur Íslendingana og við hjónin, sem vorum ekki búin að festa ráðahaginn á þeim árum, fengum þá bráðsnjöllu hugmynd að trúlofa okkur þarna.

Við keyptum trúlofunarhringa úr gulli, létum grafa nöfn okkar í þá og festum líka kaup á kampavínsglösum úr ekta kristal og splæstum svo í hágæða rússneskt kampavín. Síðan fundum við okkur rólegan afvikinn stað þar sem við settum upp hringana og skáluðum í kampavíninu. Að því búnu fórum við á hótel Gdynia og fengum okkur ríkulegan kvöldverð af þessu tilefni. Alls kostaði trúlofunin með öllu ofangreindu um það bil 5.000 íslenskar krónur. Þessi ferð til Póllands árið 1991 er mjög eftirminnileg af mörgum ástæðum og svo sannarlega tókst okkur hjónunum að gera trúlofun okkar ógleymanlega.“

Eyþór Björnsson fiskistofustjóri lýsti eftirminnilegustu ferðinni í Viðskiptablaðinu 24. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.