„Við höfum viljað styrka lögregluna til góðra verka,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB í samtali við Viðskiptablaðið inntur eftir viðbrögðum af áhyggjum lögreglumanna um stöðu sína innan BSRB.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá um helgina lýsti varðstjóri á höfuðborgarsvæðinu yfir áhyggjum sínum við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna um mögulega hagsmunaárekstra er varðar Ögmund, sem bæði er formaður BSRB og þingmaður Vinstri grænna.

„Þá þóttu mér ummæli hans undarleg að undanförnu og  hefur ekki legið á liði sínu við að safna sér atkvæðum með að þegja þunnu hljóði er varðar framkomu manna við lögreglu þrátt fyrir að vera formaður BSRB sem við erum aðili að,“ segir í tölvupósti sem sendur var á Snorra og Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Ögmundur segir BSRB hafa stutt lögregluna vel í gegnum árin og margályktað í þá veru. Hann sagði lögregluna vera öfluga, það öfluga að hún geti einnig tekið á sig gagnrýni og beint henni í uppbyggilega farveg.

Ögmundur segir að gott samstarf sé milli BSRB og Landssamband lögreglumanna.

Þá segir Ögmundur að lögreglan hafi verið undir miklu álagi undanfarið eins og alþjóð hafi tekið eftir en að hans mati hafi hún unnið vel úr þeim verkefnum sem hún hefur sinnt á síðustu vikum.

Stundum gerðar ofurmannlegar kröfur á lögregluna

Ögmundur vísar á pistil á heimasíðu sinni frá því fyrir helgi þar sem hann hvetur til friðsamlegra mótmæla og hrósar þeim mótmælendum sem mynduðu varnarskjöld fyrir framan lögreglumenn til að bægja frá ofbeldi.

„Til lögreglunnar eru gerðar miklar kröfur ekki síður en til mótmælenda,“ segir Ögmundur á heimasíðu sinni.

„Enn meiri kröfur. Stundum ofurmannlegar kröfur. Það góða er að lögreglan hefur þegar á heildina litið risið undir þessum kröfum, oft við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður. Það á vissulega við um undafarna daga. Ég hef dáðst að þeim sjálfsaga sem lögreglan hefur sýnt.“

Þá segir Ögmundur að ef á þessu er undantekningar þarf að taka þær alvarlega, ræða og laga.

„Það er hlutverk okkar allra að vernda góða löggæslu á sama hátt og hún verndar okkur,“ segir Ögmundur á heimasíðu sinni.