Ögmundur Jónasson segir að Icesave málið eigi skilið meiri umfjöllun en þegar hafi litið dagsins ljós. Hann segir í pistli sem hann birti á vef sínum fyrir áramót að Icesave sé stærsta mál íslenskra stjórnmálasögu síðari tíma. Pistilinn á vefsíðu sína skrifar hann í tilefni af bók Steingríms J. Sigfússonar. Steingrímur nýtir drjúgan hluta af bókinni til þess að rekja málið frá sínu sjónarhorni. Steingrímur og Ögmundur voru á öndverðum meiði í málinu og olli það meðal annars því að Ögmundur sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra.

„Icesave er dæmi um veikleikana í þingræðisfyrirkomulaginu, því þar tókust á foringjaræði og flokkshollusta annars vegar og réttur þingmanna til að komast að niðurstöðu á eigin forsendum hins vegar. Vandi okkar sem börðumst gegn gáleysislegri meðferð Icesave málsins, var hins vegar sá að við vildum ekki láta andstöðu við Icesave kalla yfir okkur stjórnarskipti þannig að við fengjum yfir okkur ískalt þjófræðið og málaliða auðstéttarinnar aftur, nánast volga af setu sinni á valdastólum í aðdraganda hrunsins,“ segir Ögmundur í pistli sínum.

Ögmundur segir að í bók sinni sé Steingrímur J. Sigfússon að reyna að gera lítið úr afsögn sinni. „Það skyldi þó aldrei vera vegna þess að andstaða mín í ríkisstjórn vorið 2009 og síðar afsögn mín sem heilbrigðsisráðherra um haustið, hafi haft úrslitaáhrif á framvindu Icesave málsins? Og það sem meira er, hún hafi stuðlað að farsælli niðurstöðu,“ spyr Ögmundur.