Verið væri að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að leyfa fyrirtækinu ECA Programs að starfa hérlendis. Þetta segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í samtali við Eyjuna . „Fyrir mitt leyti er þetta mál útaf borðinu,“ segir Ögmundur. Fullyrt er að ekkert verði því af starfsemi ECA Programs hérlendis. Félagið vildi reka hér viðhaldsþjónustu á Suðurnesjum fyrir herflugvélar.

Forsvarsmenn ECA Programs hafa sagt að starfsemin gæti skapað allt að 200 störf. ECA hafa átt í viðræðum við íslensk stjórnvöld, m.a. annars Flugmálastjórn, um tæplega tveggja ára skeið án niðurstöðu.

„Þarna er um að ræða fyrirtæki sem aðrar þjóðir hafa ekki viljað hafa neitt með að gera og ég vil ekki fórna hagsmunum okkar með leyfi til þessa fyrirtækis. Þarna er um herstarfsemi að ræða að mínu viti og alls óvíst um hversu mörg störf þetta hefði í raun skapað. Það væri ábyrgðarlaust að veita slíkt leyfi,“ segir Ögmundur.

Í frétt Eyjunnar segir að ekki hafi náðst í Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, við vinnslu fréttarinnar.