Þorsteinn Jóhannesson framkvæmdastjóri lækninga Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, afhenti Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra „niðurskurðarhnífinn" þegar sá síðarnefndi heimsótti stofnunina í morgun.

Á vefsíður sjúkrahússins fsi.is segir að ekki sé vanþörf á, þar sem stofnunin þarf, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir, að draga saman seglin í náinni framtíð. Það er hins vegar enginn vafi á, að hnífurinn sá er flugbeittur, því að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, áður Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ, hefur ávallt haldist vel á þeim peningum sem henni eru veittar.

Þess má líka geta að stofnunin og starfsfólk hennar hefur undantekningalaust tekið þátt í niðurskurði og sparnaði af krafti með þeim árangri að ekki er hægt að tala um neina yfirkeyrslu í rekstri undanfarin 15 ár.