„Það er langt síðan að ég hætti að furða mig á afstöðu Samkeppniseftirlitsins,“ segir Ögmundur Jónasson, fráfarandi innanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið. Þar bregst hann við tilmælum Samkeppniseftirlitsins að hætt verði við útboð á rútubílaakstri milli Leifsstöðvar og höfuðborgarsvæðisins, þar sem það raski verulega samkeppni í fólksflutningum.

„Núna á að reyna að banna okkur að vera samfélag á Suðurnesjum með því að leggja stein í götu þess að við samþættum almenningssamgöngur og flutninga frá Leifsstöð, sem hljóta að teljast hluti af almenningssamgöngum á Suðurnesjum," segir Ögmundur í Morgunblaðinu.

„Við höfum áhyggjur af því að þarna sé verið að eyða samkeppni, sem hefur verið góð reynsla af í þau fáu ár sem hún hefur viðgengist," segir Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.