Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir að ákvörðun sín, og atkvæði, varðandi Icesave málið muni ráðast af málsmeðferð á Alþingi.

Þetta sagði Ögmundur í umræðum á Alþingi fyrir skömmu en þar stendur nú yfir umræða um frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á lántöku tryggingasjóðs innistæðueigenda.

Í umræðum um málið tókust þeir á, Ögmundur og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Ögmundur sagði að hann myndi meta málið og afstöðu sína á pólitískum forsendum. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði í ríkisstjórnatíð sinni gengið frá skuldbindingum vegna Icesave málsins um lántöku með 6,7% vöxtum. Þá sagði Ögmundur að fyrir Sjálfstæðisflokknum vakti að koma ríkisstjórninni frá og það myndi hann ekki taka þátt í og hann hræddist það að Sjálfstæðisflokkurinn myndi samþykkja slíka skilmála.

Bjarni sagði málflutning Ögmundar vera rangan. Ef málið yrði fellt yrði það vegna deilna meðal stjórnarliða en ekki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar.