Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur sagt af sér ráðherradómi. Hann gerir það vegna Icesave-málsins. Hann tilynnti fréttamönnum þetta nú í hádeginu.

Hann sagði að hann væri að stíga út úr stjórnarráðinu, eins og hann orðaði það, en myndi styðja  þrátt fyrir það ríkisstjórnina áfram á Alþingi sem alþingismaður.

Áður greindi hann Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, frá ákvörðun sinni sem og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Ljóst er að þetta setur Icesave-málið í enn  meiri hnút en það er í nú. Bretar og Hollendingar hafa ekki viljað gangast við þeim fyrirvörum við Icesave-samningana sem Alþingi setti í sumar.

Fyrirvörum Alþingis verður hins vegar ekki breytt nema þingið samþykki breytingarnar. Jóhanna hefur sagt í fjölmiðlum undanfarna daga að hún vilji fara með málið aftur á þing - en forsenda þess sé að meirihluti sé fyrir því á þingi.