Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað dr. Ögmund Knútsson í starf fiskistofustjóra til næstu fimm ára. Ögmundur hefur störf 1. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.

Ögmundur er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri, meistaragráðu í sömu grein frá Háskólanum í Edinborg. Hann lauk doktorsprófi frá sama skóla en doktorsverkefnið fjallaði um stjórnun á samstarfi í íslenskum sjávarútvegi með áherslu á þróun sölusamtakanna.

Ögmundur hefur starfað í aldarfjórðung við Háskólann á Akureyri. Þar var hann til að mynda framkvæmdastjóri stefnumótunar og starfsþróunar á árunum 2001 til 2006, framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar háskólans 2006 til 2007 og deildarforseti á árunum 2015-2017. Þá sinnti hann kennslu og rannsóknum við skólann og hafa rannsóknir hans tengst sjávarútvegi hér á landi og erlendis. Síðustu mánuði hefur hann starfað sem ráðgjafi tengt sjávarútvegi, meðal annars í Víetnam og Albaníu.

Nítján sóttu um embættið og voru fjórir metnir vel hæfir af hæfnisnefnd sem fór yfir umsóknirnar.