Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segist helst vilja sjá þverpólitíska niðurstöðu um Icesave-ríkisábyrgðina á Alþingi. „Við eigum að láta einskis ófreistað til að sú gæti orðið niðurstaðan," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis.

„Mér finnst eðlilegt að reisa þá kröfu á okkur sem skipum stjórnarmeirihlutann á Alþingi og stjórnarandstöðuna að allir lyfti sér upp úr hjólförum hefðbundinna flokkastjórnmála og sameinist í niðurstöðum um hvað komi Íslandi best," segir hann.

„Helst vildi ég sjá afgreiðsluna: 63-  núll á þingi og mér finnst að við eigum að láta einskis ófreistað til að sú gæti orðið niðurstaðan."

Og áfram segir hann: „Núna fer fram umræða á vettvangi fjárlaganefndar hvort hægt sé að sameinast um skilyrði fyrir aðkomu Íslendinga að þessu samkomulagi sem þverpólitísk samstaða gæti myndast um. Það er sú niðustaða sem við öll eigum að reyna að ná."