Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, fagnar því að Héraðsdómur Suðurlands hafi samþykkt lögbannskröfu sem ríkið gerði á gjaldtöku landeigenda Geysissvæðisins. Hann vill núna lögbann á gjaldtöku við Kerið og stöðva áform um gjaldtöku við Dettifoss.

„Gjaldtakan við Geysi, sem ekki aðeins stríðir gegn landslögum heldur einnig aldagamalli hefð um aðgengi að náttúrperlum Íslands, hefur þegar valdið miklu tjóni. Þetta hefur vakið reiðiöldu í landinu og þjónustuaðilum í ferðaiðnaði ber nánast öllum saman um að þetta hafi skaðað atvinnugreinina. Hvers vegna gjaldtakan var látin líðast er með öllu óskiljanlegt. En úrskurðurinn í dag var góður,“ segir Ögmundur á vefsíðu sinni.

Ögmundur segir að landeigendur hafi sýnt fram á að þeim er ekki treystandi og nefnir hann þar sérstaklega hótanir um að loka Geysissvæðinu fyrir ferðamönnum. „Að sinni ætla ég ekki að hafa um slíka firru mörg orð en ég leyfi mér að fullyrða að landsmenn munu aldei láta slíkt viðgangast,“ segir Ögmundur.