„Það að ég vilji murka lífið úr innanlandsflugi fer fjarri. Ég tel að á undanförnum árum höfum við ekki sinnt fluginu sem skyldi,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Hann fullyrti á Alþingi í dag að ákveðið hafi verið fyrir nokkrum árum að draga úr vægi flug í innanlandssamgöngum. Því til viðbótar hafi fjárskortur ríkissjóðs staðið í vegi fyrir stuðningi við innanlandsflug. Nú ætli ríkisstjórnin að standa vörð um flugið og tryggja að samgöngum verði haldið uppi til áfangastaða á landsbyggðinni, s.s. til Gjögurs, Hafnar í Hornafirði, Þórshafnar og fleiri staða.

Jón Bjarnason, þingmaður VG, vakti máls á því á Alþingi í dag að fjárveitingar hafi ekki reynst nægilegar til að halda uppi áætlanaflugi til þeirra staða sem notið hafi stuðnings hins opinbera og spurði um stöðu áætlanaflugs. Hann rifjaði upp að flugvellinum á Sauðárkróki hafi verið lokað þar sem fjárveitingar hafi ekki reynst nægar á síðasta ári.

Ögmundur tók undir með Jóni og lagði áherslu á mikilvægi þess að halda uppi samningsbundnum flugsamgöngum innanlands. Hann benti á að tvö flugfélög sinni þessu flugi. Annað þeirra, flugfélagið Ernir, hafi glímt við fjárhagserfiðleika. Myndi fyrirtækið hætta fluginu af þeim sökum yrði að bjóða allar flugleiðir út fyrr en áætlað var. Hann vonaði að ekki fari á versta veg.

Ögmundur sagðist sömuleiðis vona að flugvöllurinn á Sauðárkróki verði opnaður að nýju enda hafi flugrekstraraðilar sýnt áhuga á því að fljúga þangað.