Ögmundur Jónasson segir sölu Grímsstaða á fjöllum órækan vitnisburður um vesaldóm íslenskra stjórnvalda, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um seldu eigendur jörðina til breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi Innanríkisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, segir það grundvallaratriði að halda eignarhaldi á landi innan landsteinanna.

Sluppum með skrekkinn í viðreign við kínverska auðkýfinginn

„Eins og  eflaust flestir muna sluppum við með skrekkinn eftir viðureignina við kínverskan auðkýfing sem ætlaði sér að komast yfir þetta sama landsvæði,“ segir Ögmundur í pistli sem hann skrifaði á heimasíðu sína.

„[... nú] sitjum við [...] uppi með órækan vitnisburð um vesladóm íslenskra stjórnvalda.“

Getur þakkað Hönnu Birnu

Segir hann að bæði sumir eigendur Grímsstaða og þeir 150 sem skrifuðu undir áskorun til ríkisstjórnarinnar, hafi viljað að ríkið keypti jörðina.

Ögmundur segir breska auðkýfinginn geta þakkað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, eftirmanni sínum í embætti innanríkisráðherra að hafa numið úr gildi reglugerð sem hann hafði sett til að reisa girðingar gegn því að eignarhald á landi færi án skilyrða til EES borgara.

Stór landsvæði á hendur auðmanna

„Annars vegar tel ég það vera grundvallaratriði að halda eignarhaldi á landi innan landsteinanna, að það verði í eigu aðilja sem búa á Íslandi,“ segir Ögmundur í pistli sínum.

„Í annan stað þarf að koma í veg fyrir að stór landsvæði safnist á hendur fárra auðmanna. Í þriðja lagi þarf að tryggja eignarhald á náttúrudjásnum Íslands hjá þjóðinni.“