Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að stjórnarflokkarnir eru ósammála um marga hluti. Aðspurður um samstarfið við Samfylkinguna segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, að vissulega hafi gengið á ýmsu.

„Um sumt erum við bærilega sammála en annað ekki,“ segir Ögmundur í viðtali í Viðskiptablaðinu.

„Það þarf ekki endilega að vera slæmt þótt fólk deili, það þarf bara að gera það af gagnkvæmri virðingu. Samfylkingin lítur á það sem gulls ígildi og mikla sáluhjálp að komast inn í Evrópusambandið eins og við þekkjum, og vill kosta nánast öllu til við að stíga inn í það meinta himnaríki. En við höfum okkar efasemdir um það og erum því andvíg.“

Það er nú ekki mikið mál fyrir ykkur að stöðva þá umsókn ef þið viljið, skýtur blaðamaður inn í.

„Við féllumst á það að senda inn aðildarumsókn að ESB, í júní 2009, og ætluðum okkur að fá efnislega niðurstöðu út úr þeim viðræðum,“ segir Ögmundur en bætir því við að hann vilji flýta viðræðunum og fá efnislegar niðurstöður sem fyrst. Þannig sé rétt að setja samninganefndunum tímamörk og afgreiða málið með kosningu.

„Þetta hefur rifið okkur á hol og kostað gífurlega fjármuni, en ofan á allt hefur þetta skapað mikla sundrung í okkar samfélagi. Við eigum ekki að hafa þetta yfir okkur of lengi,“ segir Ögmundur.

„Þar fyrir utan tel ég mjög mikilvægt fyrir okkur gagnvart ESB að leiða málið til lykta sem fyrst. Samkvæmt könnunum er meirihluti landsmanna andvígur aðild og þeim virðist fjölga í stofnanaveldi samfélagsins sem eru á móti aðild, nú síðast Samtök iðnaðarins. Þá eigum við að draga lærdóm af því sem henti Norðmenn á 10. áratugnum. Eftir að hafa setið við samningaborðið í hálft annað ár og eftir að öll aðildarríki ESB höfðu samþykkt umsókn Noregs gengu þeir til kosninga haustið 1994. Ríkisstjórn Noregs hafði sagt já en þjóðin sagði nei. ESB ríkjum fannst þau hafa verið dregin á asnaeyrum og létu Norðmenn gjalda fyrir í öðrum samningum við ESB á næstu árum. Við eigum að forðast þessi mistök og þess vegna á þjóðin að kjósa áður en samningur verður endanlega frágenginn. Það eru efnisatriðin sem máli skipta og við eigum að gera kröfu um að þau liggi fljótlega fyrir.“

Nánar er rætt við Ögmund í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.