Lagt hefur verið að yfirvöldum og stjórnendum spítalans að auka afkastagetu Landspítala fremur en að ráðast í hertar takmarkanir, en sóttvarnatakmarkanir voru hertar á dögunum. Landspítalinn er á neyðarstigi með 45 inniliggjandi með covid og þar af 6 á gjörgæslu, samkvæmt tölum gærdagsins. Undanfarna daga hefur fjöldi inniliggjandi með covid haldist stöðugur en frá áramótum hefur fjöldinn nær tvöfaldast á meðan fjöldi á gjörgæslu hefur haldist stöðugur frá ársbyrjun.

Fram kom í máli Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar, á fundi velferðarnefndar Alþingis í liðinni viku að fræðilega séð gæti gjörgæsla spítalans verið með 45 einstaklinga í rúmi og á öndunarvél, en að skortur væri á sérhæfðum mannskap og að grípa þyrfti til verulegra breytinga í mönnunarlíkani spítalans áður en til þess kæmi. Sagðist hann óviss um að hægt væri að auka afkastagetu spítalans með nokkrum hætti núna, heppilegast væri að fækka verkefnunum með aðgerðum í samfélaginu.

Lagaheimildir sóttvarnaaðgerða hvíla á forsendu um ógn gegn almannaheill og hefur borið á umræðu um það hvort sú forsenda sé brostin í ljósi fátíðra alvarlegra veikinda af ómíkrónafbrigði veirunnar. Hefur þeirri spurningu verið velt upp hvort sjúkdómur sem valdi jafn sjaldan alvarlegum veikindum og raun ber vitni geti talist ógn gegn almannaheill vegna afkastagetu heilbrigðiskerfisins á hverjum tíma.

Skiptar skoðanir á sóttvarnaaðgerðum

Með tilkomu ómíkrón hefur skapast hávær umræða um fyrirkomulag sóttvarnaaðgerða. Á meðal álitamála hefur verið hvort sóttkví og einangrun einkennalausra einstaklinga beri yfirhöfuð nægilegan árangur í ljósi víðtækrar útbreiðslu smita og styttri meðgöngutíma veirunnar. Jafnframt hefur verið bent á víðtæk áhrif sem úrræðin hafa á ýmsa starfsemi, meðal annars á Landspítala, skólastarf og í atvinnulífinu.

Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir Covid-göngudeildar, kallaði á dögunum eftir endurskoðun á nálgun skimana. Benti hann á að kostnaður við skimanir sé mikill, á að giska 50 til 100 milljónir á dag, og að fjármagn þetta gæti sennilega betur nýst væri því beint inn á spítalann og viðkvæmir hópar eingöngu skimaðir.

Athygli vakti einnig þegar Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs og yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, lýsti þeirri skoðun sinni í samtali við mbl.is að stytta ætti sóttkví í 5 daga, þannig væri minni hagsmunum fórnað fyrir meiri.

Loks hefur verið bent á að afleidd áhrif sóttvarnaaðgerða séu að mestu óþekkt stærð, til að mynda hver áhrif aðgerðanna eru á líkamlega og andlega heilsu þjóðarinnar, ekki síst barna og ungmenna. Umtalsverð röskun hefur orðið á skóla- og félagsstarfi barna og ungmenna og munu afleiðingar þess ekki koma að fullu í ljós fyrr en í framtíðinni. Í skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC), er varðar börn sérstaklega, er dregin upp dökk mynd af röskunum þessum á framtíð upprennandi kynslóða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .