Vísindamenn telja að loftsteinn eða smástirni, eins og það sem er talið hafa valdið hamförum í Síberíu í byrjun síðustu aldar, séu raunveruleg ógnun við mannlega tilvist. Sérfræðingar hafa áhyggjur af andvaraleysi og skort á aðgerðaráætlunum.

Klukkan 7:17 að morgni 30. júní 1908 varð gríðarleg sprenging í skóglendi í miðri Síberíu. Sprengingin felldi um 80 milljónir trjáa á um 2.000 ferkílómetra svæði nærri Tunguska-ánni. Sprengingin er talin hafa verið um 1.000 sinnum aflmeiri en kjarnorkusprengjurnar sem voru látnar falla á Hiroshima og Nagasaki.

Höggbylgjan sem fylgdi sprengingunni felldi menn um koll í 60 km fjarlægð frá miðju upptakanna. Valdur að þessari miklu sprengingu var smástirni eða halastjarna aðeins fáeinir metrar að þvermáli sem sprakk í 5-10 km hæð yfir jörðu.

Í huga margra er þessi mesta sprenging sem orðið hefur á jörðinni á sögulegum tíma áminning um þá ógn sem steðjar að jörðinni frá fyrirbærum utan úr geimi.

Hefði Tunguska-steinninn sprungið yfir stórri borg eins og London hefði mannfallið hlaupið á milljónum manna. Áhrifin af sprengingunni náði langt út fyrir Síberíu.

Í London var hægt að lesa dagblöð eða spila golf á miðnætti án annarrar lýsingar en þeirrar sem ryk frá smástirninu endurspeglaði frá sólu.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .