Það vakti athygli á dögunum þegar stjórnendur Arion banka kynntu á fundi með fagfjárfestum í Lundúnum að til stæði að minnka útlánasafn bankans til fyrirtækja um fimmtung fyrir lok árs 2020. Útlán bankans til fyrirtækja stóðu í 404 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs síðastliðinn september og hljóða áform bankans því upp á að lánasafnið dragist saman um ríflega 80 milljarða króna.

Til samanburðar nam árleg fjárfesting hins opinbera að meðaltali 65 milljörðum króna á árunum 2011-2016. Upphæðin er því af þeirri stærðargráðu að spurningar vakna um hvaða þjóðhagslegu áhrif það hafi að skera lánasafnið jafn  hratt og mikið niður eins og stjórnendur Arion hafa í hyggju. „Það segir sig sjálft að jafn viðamiklar aðgerðir munu hafa víðtæk áhrif,“ segir Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabankans.

„Arion banki fer með tæplega þriðjung af heildarútlánum bankakerfisins og þegar fyrirtækjalánin, sem eru nær helmingur af efnahagsreikningi bankans, eru skorin niður um 20% þá mun það augljóslega hafa þjóðhagsleg áhrif í för með sér. Almennt sé má reikna með að áhrifin verði svipuð  og þegar um útlán í bankakerfinu dragast saman; það hægir á hagkerfinu sem hefur aftur afleidd áhrif á verðbólgu og atvinnuleysi. Niðurskurðurinn mun þannig vafalaust hafa áhrif til kælingar, en hversu mikil áhrifin verða er erfiðara að spá fyrir enda veltur það mjög á því hvernig aðrar fjármálastofnanir, bankar og lífeyrissjóðir,  munu  bregðast við aðgerðunum. Ef aðrar lánastofnanir taka við slakanum verða áhrifin mögulega lítil. Ef allir taka upp sömu stefnu og keppast við að skera efnahagsreikning sinn niður á sama tíma er hætt við að niðursveiflan verði bæði dýpri og lengri en reiknað er með í síðustu þjóðhagsspám,“ segir Gylfi.

Aðgengi minnkar og vextir hækka

Ásdís Kristjánsdóttir, aðalhagfræðingur Samtaka atvinnulífsins, segir að óbreyttu sé líklegt að aðgerðin komi til með að draga enn frekar úr fjárfestingu atvinnulífsins og þar með hagvexti þegar horft sé fram á veginn. Nú þegar séu vísbendingar um að aðgengi fyrirtækja að lánsfé sé minna og lánakjör hafi versnað.

„Við sjáum það í hreinum nýjum útlánum að það hefur hægt hratt á vexti nýrra útlána hjá bönkunum. Það er áhyggjuefni þegar horft er til þess hvar við erum stödd í hagsveiflunni. Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins mældist nánast enginn og á sama tíma dróst fjárfesting saman, einkum fjárfesting atvinnulífsins, sem hefur dregist saman um ríflega 20% það sem af er ári. Ef banki eins og Arion minnkar efnahagsreikning sinn gerist það væntanlega með því að bankinn selur lán og aðrar eignir beint eða óbeint til annarra fjárfesta. Á sama tíma munu stærri lántakendur bankans líklega freista þess að fjármagna sig á skuldabréfamarkaði. Það mun þá koma fram í auknu framboði fjárfestingakosta og þar af leiðandi hækka vexti heilt yfir á skráðum og óskráðum skuldabréfum og því ýta undir hærra vaxtastig en ella í landinu.“

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .