*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 30. apríl 2021 12:10

Ögnaragn gjaldþrota

Tjarnargatan mun starfa áfram undir nýju félagi sem var stofnað samhliða hlutafjáraukningu á síðasta ári.

Sigurður Gunnarsson
Arnar Helgi Hlynsson og Einar Ben, stofnendur Tjarnargötunnar
Aðsend mynd

Ögnaragn ehf., áður Tjarnargatan ehf., sem hélt utan um rekstur framleiðslustofunnar Tjarnargötunnar, var úrskurðað gjaldþrota þann 12. apríl síðastliðinn. Einar Ben, annar stofnenda og framkvæmdastjóri Tjarnargötunnar, segir að framleiðslustofan muni þó starfa áfram undir öðru félagi.

Ögnaragn var rekið með 37 milljóna króna tapi árið 2019. Eigið fé félagsins var neikvætt um 39,5 milljónir króna í árslok 2019, samkvæmt ársreikningi félagsins.

Einar segir að síðasta ár hafi einnig reynst Tjarnargötu mjög erfitt. Viðskiptavinir fyrirtækisins hafi lent í miklum greiðsluerfiðleikum og því gekk illa að innheimta útistandandi kröfur. Fyrir rúmu ári var ákveðið að endurstokka félagið með hliðsjón af þessum útistandandi kröfum ásamt því að skera niður óþarfa kostnað. 

„Já þetta var hrikalega erfitt ár,“ segir Einar, spurður um reksturinn í fyrra. „Við vorum oft á tíðum með upp undir 25% af verkefnum okkar sem komu erlendis frá, mikið til frá Noregi. Þau féllu alveg niður vegna COVID. Að sama skapi voru erfiðleikar við innlendu verkefnin, meðal annars vegna samkomutakmarkana sem gerðu verkefnin okkar oft ill framkvæmanleg.“

Félagið TGC var stofnað fyrir rúmu ári þegar nýir hluthafar komu inn. Nýja félagið keypti búnað, firmamerki félagsins og aðrar eignir frá Ögnaragni. Það fjármagn hafi síðan verið nýtt til að greiða og semja við skuldunauta. 

Einar segir að verkefnastaða Tjarnargötu sé nokkuð góð í dag en alls starfa níu manns hjá framleiðslustofunni sem var stofnuð fyrir tíu árum síðan.

Stikkorð: Tjarnargatan Einar Ben TGC Ögnaragn