„Ég mæli oft með því að fólk tjá sig sjálft um það hvernig ástandið er. En fólk vill ekki gera það af hættu á að fá skattinn á sig eða illt umtal,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann var í pallborði með formönnum stjórnmálaflokkanna undir lok Iðnþings Samtaka iðnaðarins í dag.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri samtakanna, spurði Sigmund m.a. að hvernig hefja megi lítil og meðalstór fyrirtæki, jafnvel fjölskyldufyrirtæki, til vegs og virðingar eins og stóru fyrirtækin sem stundum prýði forsíðu dagblaða og tímarita. Í því sambandi nefndi hann risafyrirtækin Össur og Marel. Spurningunni varpaði Orri fram eftir erindi Matthias Krämer, framkvæmdastjóra sviðs lítilla og meðalstórra fyrirtækja hjá BDI, Samtökum iðnaðarins í Þýskalandi. Í erindi hans kom m.a. fram að þýskur iðnaður byggist að miklu leyti á fjölskyldufyrirtækjum. Orri benti á að minna væri um slíkt hér, helst væru það sjávarútvegsfyrirtækin sem kalla mættu fjölskyldufyrirtæki.

Erfitt að stofna fjölskyldufyrirtæki hér

Sigmundur Davíð sagði kerfið hér á landi flókið og erfitt fyrir fjölskyldufólk að setja fyrirtæki á stofn. Reglugerðafrumskógurinn væri í raun slíkur að ráða þyrfti sérstakan starfsmann til að klást við kerfið. Úr þessu þyrfti að bæta og gera kerfið aðgengilegra.

„Skattkerfið þarf að skapa hvata til að ráðast í fjárfestingu,“ sagði hann og lagði áherslu á að skapa þurfi aðstæður hér fyrir fjölskyldufólk til að geta stofnað fyrirtæki.

En svo sagði Sigmundur:

„Maður lendir oft í því í þessu starfi að hitta fólk sem segir að kerfið hér sé alveg ómögulegt. Ég mæli með því að fólkið tjái sig sjálft um ástandið, skrif grein eða eitthvað. En fólkið vill ekki gera það. Það vill ekki gera það af hættu á að fá á sig skattinn eða illt umtal. Hér er búið að búa til ógnarástand,“ sagði hann og bætti við að einstaklingar í fyrirtækjarekstri þyrðu ekki lengur að tjá sig undir eigin nafni.