Bandaríski bankarisinn Citigroup hefur fallið mikið í verði að undanförnu. Stjórnendum bankans hefur ekki tekist að koma fram með hugmyndir sem hugnast fjárfestum.

Ekki er langt síðan Citigroup var stærsti banki í heimi en upp á síðkastið hefur heldur hallað undan fæti hjá bankanum. Síðastliðinn fimmtudag tapaði bankinn til að mynda 5 milljörðum bandaríkjadala í kjölfar neyðarfundar stjórnar bankans. En á fundinum tókst stjórnendum ekki að koma sér saman um aðgerðir til að stemma stigu við erfiðri stöðu bankans. Slíkt er ekki til þess fallið að vekja traust gagnvart fjárfestum.

Virði bréfa í Citigroup hefur minnkað um helming í vikunni sem nú er senn á enda. Síðastliðinn mánudag tilkynnti Vikram Pandit, forstjóri Citigroup, að bankinn hyggðist segja upp 52.000 starfsmönnum.

Á vef breska blaðsins Guardian er sagt frá því að stjórn Citigroup íhugi nú að skipta bankanum upp, sameina hann öðrum fyrirtækjum eða selja eignir bankans á „brunaútsölu.“ Bankinn verði nú að grípa til einhverra þessara ráða áður en það verður um seinan.

Það er hægara sagt en gert að selja svo stórann banka en rétt til þess að gefa mynd af stærð hans má taka fram að hjá Citigroup starfa 350.000 manns víðs vegar um heiminn. Það er vel rúmlega öll íslenska þjóðin.