Nú á dögunum var greint frá því að Arna Kristín Einarsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefði verið ráðin framkvæmdastjóri kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar í Ottawa. Að sögn Örnu leggst nýja starfið vel í hana.

„Ég er mjög spennt fyrir því að flytja út og byrja að vinna. Þau frá kanadísku þjóðarhljómsveitinni höfðu samband við mig að fyrra bragði og spurðu hvort ég hefði áhuga á þessu starfi. Ég var ekki sú eina sem kom til greina í starfið og fór út til Kanada í viðtöl. Að lokum var mér svo boðið starfið, sem var einstaklega ánægjulegt. Þetta var ekki eina hljómsveitin sem sýndi mér áhuga, en mér var boðinn góður samningur í Kanada þannig að ég ákvað að þiggja boð þeirra og dró mig út úr öðru umsóknarferli hjá annarri hljómsveit. Þetta er virt hljómsveit með mjög flotta listamenn innanborðs og því er þetta starf mjög spennandi tækifæri."

Í frístundum sínum þykir Örnu meðal annars skemmtilegt að hlaupa, fara á skíði og í leikhús.

„Í september síðastliðnum tók ég meðal annars þátt í Berlínarmaraþoninu. Það var meðal annars gert til þess að halda upp á 50 ára afmælið mitt og var þetta fín leið til að ögra sjálfum sér. Hlaup er mjög góð leið til þess að halda sér í formi, bæði líkamlega og andlega. Það var eitt ráð sem pabbi gaf mér þegar ég tók við framkvæmdastjóra starfinu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta ráð var á þann veg að það skipti miklu máli, þegar hausinn á manni er á fullu og undir álagi, að þreyta líkamann sömuleiðis til þess að maður sofi vel og þreytan sé því ekki bara andleg. Það má segja að ég hafi algjörlega tekið hann á orðinu.

Mér þykir einnig mjög gaman að lesa og læra, en núna nýlega skellti ég mér í diplómanám í samningatækni og sáttamiðlun við Háskólann á Bifröst. Ég útskrifast úr náminu í febrúar næstkomandi. Mér finnst þetta nám ótrúlega skemmtilegt og áhugavert. Það er einnig mjög gagnlegt þar sem það reynir svo mikið á þessa þætti í starfi framkvæmdastjóra og maður þarf oft að beita samningatækni og vera sáttamiðlari sömuleiðis."

Arna er gift Hilmari Þorsteini Hilmarssyni og eiga þau þrjú börn. „Dóttirin er farin að heiman og býr í London, þar sem hún vinnur sem leikkona. Svo eigum við tvo yngri stráka, 9 og 14 ára, sem búa hjá okkur. Þetta eru stórir og öflugir strákar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .