„Ég fagna áfanganum,”  sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, skömmu áður en viðskipti með félagið voru hringd inn í Kauphöll Íslands. “ Áfanginn er mikill fyrir okkur, nú eru uppfyllt þessi skilyrði sem sett voru við einkavæðinguna árið 2005, með þessum gjörningi,” sagði hann.

Brynjólfur benti á að aðdragandi skráningarinnar hafi verið langur. Í fyrstu var gert ráð fyrir félagið yrði skráð fyrir síðustu áramót, samkvæmt kaupsamning við Ríkissjóð þegar félagið var einkavætt,  en fékk frest til marsloka vegna þátttöku þess í söluferli slóvenska félagsins Telekom Slovenije.

Brynjólfur sagði að aðstæður hefðu verið erfiðar á mörkuðum um nokkurt skeið en hann vonaði það besta. Skipti hélt um 17 kynningarfundi fyrir fjárfesta áður en félagið var skráð á markað.

Skömmu eftir að viðskipti hófust með Skipti á hlutabréfamarkaði, tilkynnti stærsti hluthafi Skipta, fjármálaþjónustufyrirtækið Exista [ EXISTA ], um að hafa lagt fram valfrjálst yfirtökutilboðið í félagið. Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, fylgdist með því þegar viðskipti með félagið voru hringd inn.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Nasdaq OMX Nordic Exchange á Íslandi, sagði að hann legði áherslu á það, að tækifæri eru fólgin í öllum tímum á hlutabréfamarkaði. Þegar horft er yfir söguna á hlutabréfamörkuðum, er reyndin sú að þeir sem eru fengsælastir að jafnaðir, eru þeir sem kunna að fjárfesta í gegnum hagsveiflur, bæði kunna á uppsveifluna og niðursveifluna.

„Það þarf að kunna haga sér rétt við aðstæður. Það er ögrandi verkefni fyrir fjárfesta,” sagði hann.

Útboðsgengi Skipta var 6,64 krónur á hlut. Þegar þetta er skrifað um hádegi er gengið fimm krónur á hlut, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur um 39 milljónum króna.

Skipti eignarhaldsfélag er með eignir á Íslandi og erlendis og einbeitir sér að fyrirtækjum sem starfa á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Markmið fyrirtækisins er að fjárfesta í vel reknum fyrirtækjum sem hvíla á traustum grunni en hafa jafnframt góða möguleika til vaxtar. Skipti á fyrirtæki á Íslandi, í Danmörku, í Noregi og á Bretlandseyjum. Stærsta fyrirtækið innan Skipta er Síminn.