Skiptum á þrotabúi Pennans er lokið. Allar forgangskröfur voru greiddar, samtals að upphæð um 136,8 milljónir króna, að því er kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Til veðkrafna greiddust 1.486,4 milljónir og til almennra krafna 41,8 milljónir.

Ógreiddar kröfur í búið námu samtals nærri 7,5 milljörðum króna.

Penninn er í dag í eigu Arion banka, en Kaupþing var stærsti kröfuhafi. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun ágúst að stefnt er að því að setja félagið í söluferli á fjórða ársfjórðungi þessa árs eða í byrjun næsta árs. Endanleg ákvörðun innan bankans liggur þó ekki fyrir, samkvæmt svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.