Skiptum er lokið í félaginu FS25 ehf. og fengust engar eignir upp í tæplega 435 milljóna króna kröfur. Þetta kom fram í Lögbirtingablaðinu undir lok síðustu viku. FS25 var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2011 og var skiptum í því lokið í nóvember sama ár án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.

Stjórnarmenn í FS25 voru Rúnar Kristjánsson og Björk Sigurðardóttir. Félagið FS25 ehf. átti 100% hlut í Öskjuhlíð ehf. en sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í mars 2012 að skiptum hefði verið lokið á félaginu. Engar eignir fengust heldur upp í 385 milljóna króna kröfur í Öskjuhlíð ehf. Félagið Öskjuhlíð átti svo tæpan 40% hlut í Keiluhöllinni á móti Aðhaldiehf., sem var í eigu Rúnars og FS25. Árið 2010 var nafni félagsinsKeiluhöllin ehf. breytt í K2010 ehf. en K2010 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2012. Fram kom í Lögbirtingablaðinu í byrjun árs 2013 að skiptum hefði verið lokið á búinu án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, að upphæð 687 milljónir króna.

Þá var nafni félagsins Allir saman ehf. breytt í Keiluhöllin ehf. árið 2010, en félagið er í meirihluta eigu Bjarkar Sigurðardóttur og tók í kjölfarið yfir rekstur Keiluhallarinnar frá K2010 og Öskjuhlíð. Heildarkröfur vegna þriggja félaga er tengjast Keiluhöllinni: FS25, Öskjuhlíð ehf. og K2010 ehf. sem afskrifa hefur þurft, nema því um 1.500 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.