Fjármálaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins söfnuðust saman í Stórhertogadæminu Lúxemborg í gær til skrafs og ráðagerða um það grafalvarlega ástand sem nú er komið upp á fjármálamörkuðum.

Umræðurnar snerust meðal annars um það hvort aðildarríkin gætu komið sér saman um sameiginlegt verklag þegar kæmi að því að bjarga bönkum og fjármálamörkuðum.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins undanfarna daga eru flestir sammála um að vandamálið á fjármálamörkuðum sé svo tröllaukið að ómögulegt sé að leysa það og endurreisa trú á mörkuðum í Evrópu án þess að það sé gert á vettvangi Evrópusamrunans.

Tillögur hafa verið lagðar fram um sameiginlega lausn með beitingu ríkissjóða viðkomandi aðildarríkja en þær hafa verið mætt andstöðu í Þýskalandi vegna ótta við hinn mikla kostnað fyrir þarlenda skattgreiðendur sem gæti fylgt björgunaraðgerðum utan landsins.

Ljóst má vera að sökum stærðar og mikilvægis þýska hagkerfisins fyrir Evrópu munu mál ekki ná fram að ganga án pólitísks stuðnings í Berlín. Enn er hans ekki að vænta.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .