Nýjar verðbólgutölur eru beinlínis skelflilegar og ljóst er að ekkert mun koma í veg fyrir að reyna muni á á endurskoðunarákvæði kjarasamninganna í byrjun næsta árs, allar forsendur samninganna séu augljóslega algerlega brostnar.

Þetta segir Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ og hann segist óttast að verðbólgan verði í sama takti á næstunni.

„Það er grátlegt að hlutirnir skuli vera komnir í þennan farveg. Það er ögurstund í þesum málum að mínu viti. Ef mönnum gengur ekki að takast eitthvað á við vandann og lágmarka skaðann núna á þessum vordögum þá óttast ég að við séum að sigla inn í eitthvað sem flokkast undir að vera skelfilegt. Nóg er ástandið orðið slæmt nú þegar," segir Grétar.

Hann ASÍ hafa verið að kalla eftir því síðustu vikurnar að ríkisstjórnin settist niður með verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum til þess að reyna að takast á við vandann eins og gert hafi verið 2001-2002 og skilað hafi þeim árangri að mönnum hafi tekist á tiltölulega stuttum tíma tekist að koma verðbólgunni í skikkanlegt horf aftur.

„Þannig að við höfum verið að kalla eftir samráði af hendi ríkisstjórnarinnar og loksins er það að fara stað."