Stjórn Société Générale hefur ákveðið að formaður bankastjórnar, Daniel Bouton, víkji ekki sæti en ákvað þess í stað að setja á stofn sérstaka nefnd, skipaða þremur óháðum aðilum, sem bregðast á við þeim hremmingum sem bankinn hefur lent í vegna hins gífurlega taps af völdum svika Jerome Kerviel. Á fundinum samþykkti stjórnin einróma stuðningsyfirlýsingu við Bouton. Franskir ráðamenn hafi ítrekað gefið beint og óbeint í skyn undanfarna daga að þeir telji að Bouton eigi að fara úr stjórninni.

Nefndinni er falið að ná tökum á ástandinu og tryggja að þær aðgerðir hafi hagsmuni bankans að leiðarljósi, viðskiptavini þess, hluthafa og starfsmenn. Nefndin á að endurskoða reikninga bankans og varpa ljósi á hvernig svikin gátu átt sér stað, að því er fram kemur í tilkynningu frá formanni nefndarinnar.

Nokkur hundruð starfsmenn bankans funduðu fyrir framan höfuðstöðvar hans fyrr í dag og lýstu yfir stuðningi sínum við Bouton. Bankastjórnin virðist treysta því að Bouton sé best til þess fallinn að bægja frá hættunni af yfirtöku og safna saman 5,5 milljörðum evra til að tryggja að bankinn haldi sjó. Tveir af helstu bönkum Frakklands, BNP Paribas og Credit Agricole eru sagðir hafa augastað á Société Générale en einnig erlendir bankar á borð við ensku bankana HSBC og Barclays, hinn þýska Deutsche Bank, spænska bankann Banco Santander og ítalski bankinn UniCredit.

Evrópuráðið andvígt verndarstefnu

Forsætisráðherra Frakklands, Francois Fillon, hefur fullvissað franska þingið að bankinn verði varinn gegn óvinveittri yfirtöku og að bankinn verði áfram í franskri eigu. Evrópuráðið, sem stýrir innra markaði landa Evrópusambandsins, hvatti í dag Frakka til að taka ekki um verndarstefnu gagnvart öllum yfirtökutilraunum erlendra banka.