*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 7. maí 2016 13:10

Óháð landamærum

Advania hefur á skömmum tíma náð fótfestu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Kári Finnsson
Haraldur Guðjónsson

Advania hefur á stuttum tíma breyst í alþjóðlegt fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Ægir Már Þórisson tók við sem forstjóri fyrirtækisins í október síðastliðnum en hann hefur lagt áherslu á það í stjórnartíð sinni að færast nær viðskiptavinum fyrirtækisins og bæta þjónustu og ráðgjöf þess enn frekar.

Fyrirtækið er alþjóðlegt og með starfsemi utan landsteinana. Hvernig er sú starfsemi og hvernig fléttast hún við það sem þið gerið á Íslandi?

„Heildarfjöldi starfsmanna er um 1.000 og þar af starfa um 600 manns á Íslandi. Ef við lítum til veltu þá er veltan ívið meiri í erlendu félögunum en á Íslandi. Við erum stórt fyrirtæki á Íslandi en á Norðurlöndunum erum við smáfyrirtæki og sem slíkt með mikla vaxtarmöguleika. Meirihluti tekna félagsins kemur að utan, en þá erum við að taka saman erlend verkefni sem við vinnum hér á Íslandi auk reksturs á öðrum rekstrarsvæðum.“

„Ef við veltum fyrir okkur stefnumótuninni, þ.e. hvað við erum að gera, þá er ætlunin ekki að taka viðskiptamódelið sem við höfum starfrækt á Íslandi og endurtaka það á stærri leikvelli. Við gerum okkur grein fyrir því að ákveðnir styrkleikar fyrirtækisins eru séríslenskir og að sama skapi eru aðrir styrkleikar sem bara Advania í Svíþjóð býr að og vandasamt er að flytja yfir til Íslands. Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á staðbundna þekkingu. Kjarninn í okkar stefnu er að komast nálægt viðskiptavininum og vinna þétt með honum. Þá þarf maður að þekkja markaðinn vel og þess vegna skiptir miklu máli að það sé skýr fókus á Íslandi, í Svíþjóð, Noregi og í Danmörku.“

„Við bjóðum þó fjölbreyttar lausnir sem eru alveg óháðar landamærum, og skiptir þá engu máli hvaðan þjónusturnar eru reknar. Við höfum lagt heilmikla vinnu í að skilgreina þessar lausnir, en ein slík er gagnaveraþjónusta okkar. Það vill svo til að gagnaverin sem við erum að reka eru á Íslandi en staðsetning þeirra skiptir kaupanda þjónustunnar engu máli, gagnaverin gætu allt eins verið annars staðar. Þetta þýðir að gagnaveraþjónusta okkar er óháð landfræðilegri staðsetningu. Annað dæmi um þjónustu sem er óháð landamærum eru skýjalausnir okkar.“

Nánar er rætt við Ægi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð