Fjármálafyrirtækið Fossar markaðir var stofnað árið 2015. Félagið sem sérhæfir sig í markaðsviðskiptum og þjónustu tengdum þeim hefur náð eftirtektarverðum árangri á þeim tíma sem það hefur starfað. Fossar voru stærstir í tilkynntum viðskiptum í Kauphöllinni í ágúst með 21,8 prósenta hlutdeild í skuldabréfum og 25,9 prósenta hlutdeild í hlutabréfum.

Haraldur Þórðarson hefur allt frá stofnun gegnt starfi forstjóra Fossa markaða. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði í yfir 15 ár og áður en hann tók við starfi forstjóra Fossa gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Straumi fjárfestingabanka frá 2011 til 2015 og sat auk þess í framkvæmdastjórn bankans. Á árunum 2007 til 2010 var hann framkvæmdastjóri fjárstýringar Exista og forstöðumaður fjármögnunar hjá félaginu frá 2006. Þar áður starfaði hann í fjárstýringu Kaupþings banka frá 2003 til 2006. Haraldur er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með MBA gráðu frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona.

Óháður aðili á markaði

Haraldur segir hátt þjónustustig, faglega starfshætti og þá staðreynd að fyrirtækið sé óháður aðili á markaði eiga stóran þátt í velgengni síðustu ára. „Við áttum tiltölulega góðu gengi að fagna fljótlega eftir að við hófum rekstur og í raun alla tíð síðan sem skýrist af nokkrum þáttum. Þjónustustig Fossa er hátt og starfsmenn félagsins eru fremstir á meðal jafningja. Við höfum ákveðna sérstöðu sem felst ekki síst í því að við erum óháður aðili á markaði. Það þýðir að við erum ekki með eignastýringu, eigin viðskipti eða aðra starfsemi sem getur mögulega skapað aðstæður þar sem við erum í samkeppni við eigin viðskiptavini. Þegar viðskiptavinur leitar til okkar þá veit hann að við vinnum algjörlega fyrir hann og það eru almennt engir aðrir hagsmunir sem geta komið til álita í því ferli. Fyrir mér er óhæði lykilorðið í þessu.“ Þetta segir Haraldur strax hafa fallið í mjög góðan jarðveg hjá viðskiptavinum Fossa jafnt heima sem erlendis og hafi verið þeirra sérstaða frá upphafi.

Vöxtur félagsins hefur verið tiltölulega jafn undanfarin ár en hann hefur ekki síst verið á okkar syllu sem er að þjónusta erlenda aðila. Í þessu samhengi má einnig tala um sérstöðu þar sem Fossar eru leiðandi í þjónustu við erlenda aðila sem eiga viðskipti á íslenskum markaði. Og þar sem við höfum einnig byggt upp góða þjónustu fyrir viðskiptavini okkar á mörkuðum víðs vegar um heiminn má segja að starfsemi Fossa sé alþjóðleg,“ segir Haraldur

Þjónustuframboðið aukið

Frá stofnun Fossa hafa markaðsviðskipti verið kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Á síðustu misserum hafa tveir nýir þjónustuþættir bæst við reksturinn sem tengjast þó markaðsviðskiptunum náið. „Á þeim tíma sem við höfum starfað höfum við bætt við þá þjónustu sem við veitum viðskiptavinum okkar og meðal annars hafið starfsemi erlendis eins og fram hefur komið. Segja má að í dag skiptist sú þjónusta sem við veitum viðskiptavinum okkar í þrennt. Í fyrsta lagi eru það markaðsviðskipti þar sem við þjónustum innlenda og erlenda aðila á íslenska markaðnum, en einnig innlenda aðila á erlendum mörkuðum.

Í öðru lagi bjóðum við fyrirtækjaráðgjöf en við fengum leyfi til hennar fyrr á þessu ári. Við sóttum um það leyfi á grundvelli þess að viðskiptavinir okkar sóttust í auknum mæli eftir slíkri þjónustu. Þetta er sérhæfð fyrirtækjaráðgjöf á þeim grunni að verkefnin sem leitað er til okkar með tengjast að einhverju leyti markaðnum og markaðsviðskiptum. Þessi verkefni eru hins vegar oft á tíðum þess eðlis að það fari betur á því að vinnan við þau eigi sér stað í afmörkuðu teymi. Þessi starfsemi tengist útboðum, skráningum, sölu á stórum hlutum skráðra fyrirtækja, afskráningu á félögum og þar fram eftir götum. Við höfum hins vegar einnig bolmagn til að vinna verkefni tengd óskráðum íslenskum fyrirtækjum, meðal annars á fjármögnunarhliðinni. Vegna þess hversu alþjóðlegt tengslanet okkar er höfum við þar upp á að bjóða stærra mengi af mögulegum fjárfestum en flestir aðrir. Markaðurinn er búinn að þróast og breytast auk þess sem eftirspurn eftir.verkefnum á þessu sviði hefur aukist. Við erum því í raun að bregðast við óskum viðskiptavina okkar með því að útvíkka þjónustuna með þessum hætti sem skýrir af hverju við sóttumst eftir fyrirtækjaráðgjafarleyfi fyrr á þessu ári.

Í þriðja lagi veitum við svo það sem kallast fagfjárfestaþjónusta. Þar erum við að þjónusta fagfjárfesta sem eru að leita að fjárfestingakostum, bæði hérna heima og erlendis,“ segir Haraldur. Hann segir að þeir sem sæki í þessa þjónustu séu að mestu leyti aðilar sem sækjast eftir eigna- og áhættudreifingu og í henni felst að finna ákjósanlega fjárfestingakosti í sjóðum af ýmsu tagi. „Við erum með samninga við rekstrarfélög hér á Íslandi þannig þetta geta verið erlendir aðilar sem eru að leita í sjóði hérna heima. Þetta geta jafnframt verið innlendir aðilar sem eru að fjárfesta meira erlendis eftir að höftum var aflétt. Í síðasta lagi á þetta líka við um erlenda aðila sem eru að fjárfesta á erlendum mörkuðum. Ásamt því að hafa öflugt teymi sem sinnir fagfjárfestaþjónustu á Íslandi þá snýst stór hluti starfsemi okkar í London einnig um þennan þjónustuþátt. Við erum með aðgang og samstarfssamninga við erlendar sjóðastýringar og greiningarfyrirtæki auk aðgangs að fjárfestingakostum út um allan heim hvort sem það er beinn markaðsaðgangur að kauphöllum eða aðgangur að sjóðastýringum. Það fer bara eftir hverju viðskiptavinurinn óskar hverju sinni. Sá aðgangur sem við getum veitt er mjög víðtækur og þetta einfaldar alla umsýslu viðskiptavina okkar, sem þurfa bara að leita á einn stað.“

Að sögn Haraldar hafa öflugir erlendir aðilar gengið til liðs við starfsemi Fossa á erlendum mörkuðum. „Sá sem leiðir starfsemi okkar í London heitir Davið Witzer og er með 23 ára reynslu úr heimi eignastýringar og það var mikill fengur að fá hann til liðs við okkur hvað varðar þennan þjónustuþátt. Þá erum við einnig með alþjóðlega ráðgjafa og einn af þeim er maður að nafni Olaf Rogge en hann var stofnandi og aðaleigandi Rogge Global Partners sem var alþjóðlegur fjárfestir og var með um 60 milljarða evra í stýringu þegar mest var. Auk þess að vera ráðgjafi Fossa er hann einnig ráðgjafi hjá Allianz sem er eitt stærsta fjármálaþjónustufyrirtæki heims. Eignarstýringarhluti þess er jafnframt með gríðarlega miklar eignir í stýringu. Við leggjum áherslu á í okkar fagfjárfestaþjónustu að við erum með öflugt alþjóðlegt teymi og samstarfsaðila. Þannig teljum við okkur hafa upp á mjög góða þjónustu að bjóða á þessum vettvangi.

Hvað varðar fagfjárfestaþjónustuna þá skiptir óhæðið líka miklu máli. Viðskiptavinir geta leitað til okkar fagfjárfestaþjónustu og vita að við höfum enga hlutdrægni gagnvart því að beina fjárfestum í ákveðna eignaflokka eða sjóði fram yfir aðra. Við höfum ekki hagsmuni af því að beina okkar viðskiptavinum í neinar vörur aðrar en þær sem við teljum að henti þeim sem best hverju sinni. Það sem við höfum enn fremur upp á að bjóða er að sama hvert fjárfestingunni er beint, í innlendar fjárfestingar eða erlendar, getum við haldið utan um það allt á einum stað og komið fram fyrir hönd viðskiptavina okkar.“

Nánar er rætt við Harald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .