Óhætt ætti að vera að hækka endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu hér á landi úr 20% í 25%, að mati Leifs B. Dagfinnsson, eins af aðaleigendum framleiðslufyrirtækisins Truenorth. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið hækkun endurgreiðslu geta tryggt að fleiri erlendar kvikmyndir verði teknar upp hér.

Alþingi samþykkti nýverið áframhaldandi endurgreiðslu kostnaðar að upphæð 20% af öllum íslenskum kostnaði við kvikmyndaframleiðslu.

„Ég man ekki eftir öðru eins“

Leifur segir lykilatriði að bjóða upp á endurgreiðslu á kostnaði ef Ísland ætlar sér að vera samkeppnishæft, sérstaklega í ljósi þess hve hlutfallslega dýr hótelherbergi eru hér á landi, sem og matur, bensín og bílaleigubílar. „Leikstjórann langar til að fara og hefur séð fyrir sér að myndin gerist hér. Framleiðandann langar til að fara en hann þarf að sannfæra kvikmyndaverið sem hefur einhverja fyrirfram ákveðna tölu fyrir verkefnið. Það þarf að vera eitthvað algjörlega sérstakt sem bara er hægt að taka upp hér en endurgreiðslan einfaldar þetta,“ Leifur.

Truenorth vann með Clint Eastwood að tökum á kvikmyndinni Flags of Our Fathers árið 2005 og með leikstjóranum Ridley Scott við tökur á geimverumyndinni Prometheus í sumar.

Leifur segir erlenda kvikmyndaleikstjóra sækja í að taka upp hluta kvikmynda hér: „Það er mikil eftirspurn og staðan er mjög góð. Ég man ekki eftir öðru eins.“

Ítarlegt viðtal er við Leif B. Dagfinnsson í nýjasta Viðskiptablaðinu, sem kom út fyrir jól. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð í slánni hér að ofan.