Verkfræðistofan Mannvit hf. tapaði 574,4 milljónum króna í fyrra. Félagið hagnaðist árið 2012 um 6,8 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrir árið 2013.

Skýrist tapið helst af verulegum sölusamdrætti á milli ára, en rekstrartekjur af sölu voru 4.977,8 milljónir árið 2013 borið saman við 7.535,9 milljónir fyrra ár.

Eignir rýrnuðu einnig á milli ára og voru 3.830,7 milljónir króna borið saman við 4.323,8 milljónir fyrra ár. Skuldir jukust á milli ára og voru 2.823 milljónir borið saman við 2.587,7 milljónir.

Mannvit á fjölda dótturfélaga á Íslandi en einnig í Ungverjalandi, Bretlandi, Þýskalandi og Noregi. Eignarhald í félaginu er nokkuð dreift og eiga 20 stærstu hluthafar sem allir eru einstaklingar 1,5% hver um sig í félaginu, eða samtals 30%. Félagið á 16,70% hlut í sjálfu sér.