Skuldir heimilanna við bankakerfið hafa vaxið um 13% á þessu ári þrátt fyrir að ný lán hafi verið tiltölulega lítil.

Frá þessu er greint í Morgunkorni Glitnis, í umfjöllun um tölur Seðlabankans um útlán bankastofnana. Heildarskuldir heimilanna við bankakerfið námi í lok júní um 947 milljörðum króna og höfðu aukist um 109 milljarða frá áramótum. Þar af eru 596 milljarðar í formi verðtryggðra skuldabréfa og um 227 milljarðar gengistryggður. Gengistryggði hlutinn hefur vaxið hratt undanfarin misserii og er höfuðástæða þess undanfarna mánuði óhagstæð gengisþróun krónu, samkvæmt Morgunkorni Glitnis. „Fróðlegt er að skoða áhrif gengisfalls krónu og mikillar verðbólgu sem í kjölfarið hefur fylgt á skuldastöðu heimila við innlánsstofnanir. Sé þróun gengistryggðra skulda leiðrétt miðað við gengisvísitölu og þróun verðtryggðra skulda endurreiknuð miðað við vísitölu neysluverðs kemur upp úr kafinu að frá ársbyrjun hefur orðið ríflega 20% aukning í gengistryggðum lánum til heimilanna á sama tíma og verðtryggð útlán hafa minnkað um 5%.

Af því má í grófum dráttum draga þá ályktun að heimilin hafi skuldbreytt nokkrum hluta verðtryggðu lána sinna í gengisbundin lán það sem af er ári. Einnig kemur í ljós að með ofangreindum leiðréttingum hafa útlán til heimilanna nánast staðið í stað frá áramótum. Með öðrum orðum er langstærsti hluti skuldaaukningar heimila við bankakerfið af völdum þróunar gengis og verðbólgu, fremur en aukinnar lántöku,“ segir í Morgunkorni Glitnis. Glitnir gerir þó þann fyrirvara við þessar tölur að um grófa nálgun er að ræða þar sem myntsamsetning gengistryggðra útlána kann að vera önnur en gengisvísitölunnar.