Sahap Kavcioglu, nýráðinn seðlabankastjóri Tyrklands og prófessor í bankafræðum, hefur nokkuð óhefðbundnar hugmyndir í peningamálum.

Kavcioglu tók við stöðunni í síðustu viku eftir að forsetinn, Recep Tayyip Erdogan, sagði forvera hans, Naci Agbal, fyrirvaralaust upp síðustu helgi eftir aðeins fjóra mánuði í starfi. Sá var þriðji seðlabankastjórinn til að missa vinnuna þar í landi á innan við tveimur árum.

Tyrkneska líran féll um allt að 15% gagnvart Bandaríkjadal í kjölfarið, og megin hlutabréfavísitala landsins féll um 9%. Á fimm árum hefur líran nú fallið um 60% gagnvart dalnum.

Þrálát verðbólga og veiking lírunnar hafa hrjáð landið síðastliðin ár, en Erdogan hefur sagt háa vexti bera sök á verðbólgunni, í andstöðu við viðtekin viðhorf í peningamálum. Hann hefur raunar sagt vexti yfir höfuð vera „rót alls ills“.

Kavcioglu er á sama máli, og hefur meðal annars gefið út bók um vaxtalaus fjármál, auk þess að skrifa fjölda blaðagreina um að háir vextir kyndi undir verðbólgu.

Í umfjöllun Financial Times um málið er haft eftir hagfræðiprófessor og fyrrum varaseðlabankastjóra þar í landi að Kavcioglu hafi verið ráðinn gagngert til að enduróma viðhorf og málflutning Erdogan, sem hefur verið á valdastóli frá árinu 2003, fyrst sem forsætisráðherra til 2014, og síðan þá sem forseti.