Birna Ósk Einarsdóttir hefur starfað hjá Símanum frá því í lok árs 2001. Á þeim tæpu fjórtán árum sem hún hefur starfað hjá fyrirtækinu hafa átt sér stað umtalsverðar breytingar; fyrirtækið fór úr ríkiseigu, gríðarleg samkeppni myndaðist á fjarskiptamarkaði og hefur starfsmönnum Símans fækkað úr 1.300 í tæplega 490. Hjá Símasamstæðunni starfa nú í heild um 770 starfsmenn.

Þegar Birna var nýbyrjuð var Síminn með næstum 100% markaðshlutdeild. Núna er hlutdeild Nova, Vodafone og Símans nánast jöfn á farsímamarkaði.

„Mikil breyting varð þegar Nova kom inn á markaðinn og bauð allt annað en hinir. Áherslan og nálgunin á unga fólkið var mjög flott. Leið þeirra til að skapa samfélag innan viðskiptavinahópsins með því að bjóða allt ókeypis innan kerfisins fannst mér snilld. Þau krydduðu samkeppnina, enda fyrirtækið öðruvísi en Síminn og Vodafone. Þar er herjað á farsímamarkaðinn en fastanetið skilið eftir.“ Birna fagnar samkeppninni.

„Þegar Vodafone kom til sögunnar urðum við hjá Símanum miklu betri og svo enn betri við komu Nova. Ég tel þetta ekki hafa gert fyrirtækinu neitt annað en mjög gott. Enginn ætti að gráta það að fara úr 100% markaðshlutdeild enda óheilbrigt að vera í einokun. Fleiri sterkir keppinautar skapa fleiri krefjandi verkefni. Það væri ekki gaman að stýra sölu og þjónustu í einokunarfyrirtæki. Samkeppnin gerir starfið skemmtilegt,“ segir Birna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .