Framlagning ríkisskattstjóra (RSK) á upplýsingum úr álagningaskrá um tekjuskatt einstaklinga og útsvar er heimil. Hins vegar er ekki heimilt að birta upplýsingar um útvarpsgjald og upplýsingar um gjöld einstaklinga í framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta kemur fram í áliti Persónuverndar þessa efnis.

Í maí barst Persónuvernd erindi frá RSK þar sem spurt var um heimildir skattsins til að birta umræddar upplýsingar. Venja hefur verið að gera álagningarskrár opinberar og hafa fjölmiðlar birt fréttir upp úr þeim. Það var ekki gert á sama tíma í ár og vant er sökum þess að RSK taldi sig þurfa fá á hreint hvort heimild væri til þess samkvæmt nýjum persónuverndarlögum.

Auk þess sem áður hefur verið nefnt segir í álitinu að notkun nafns, heimilisfangs og fæðingardags sé nægjanleg við birtingu upplýsinganna. Því sé ekki heimilt að birta kennitölur einstaklinga með upplýsingum um álagningu þeirra.

Þá er tekið fram í álitinu að vinnsla annarra ábyrgðaraðila en RSK á persónuupplýsingum sem koma fram í álagningarskránum, á borð við fjölmiðla, sé háð því að vinnslan falli undir eitthvert undanþáguákvæða persónuverndarlaganna. Vinnsla slíkra aðila er á eigin ábyrgð og þurfa þeir að gæta þess að fara ekki út fyrir ramma laganna.