Það samrýmist ekki tilskipun Evrópusambandsins að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%. Þetta kemur fram í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins vegna máls Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum.

Þar kemur fram að það sé landsdómstólsins, þ.e. íslenskra dómstóla, að meta hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum sé hægt að beita af því tilefni, að því gefnu að vernd Evróputilskipunarinnar sé ekki stefnt í hættu.

Í máli Sævars eru málavextir með þeim hætti að hann tók verðtryggt lán að fjárhæð 630 þúsund króna hjá Landsbankanum. Í greiðsluáætlun með skuldabréfinu kom fram að hún byggði á 0% verðbólgu, núgildandi vöxtum og gjaldskrá bankans sem gætu tekið breytingum. Greiðslubyrði reyndist hins vegar talsvert hærri en greiðsluáætlunin gerði ráð fyrir, en hækkunin er talin hafa orsakast af verðbótauppreikningi lánsins sem hafði þau áhrif að höfuðstóll og vextir hækkuðu umtalsvert.

Í áliti EFTA-dómstólsins kemur einnig fram að Evróputilskipunin leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu lána í samningum milli veitanda og neytanda. Það sé landsdómstóls að meta hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur.

Þá segir enn fremur að tilskipunina verði að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann, að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfi.

Álit EFTA-dómstólsins má lesa hér .