Samtök verslunar- og þjónustu fagna öllum tillögum sem stefna í átt að auknu frelsi í viðskiptum hér á landi. Komist breytingar á í þeim efnum munu þær nýtast innlendum jafnt sem erlendum fyrirtækjum vegna þess að stjórnvöldum er ekki heimilt að mismuna fyrirtækjum á þessu sviði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem samtökin hafa sent frá sér þar sem vísað er til þess að erlenda smásölukeðjan Costco hafi sýnt því áhuga að hefja starfsemi á íslenskum markaði.

Af fréttum um málið má ráða að Costco hafi sóst eftir undanþágum vegna sölu lyfja og áfengis í verslunum auk þess sem verslunarkeðjan hefur leitað heimildar til að flytja til landsins ferskt erlent kjöt. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur gefið út að stjórnvöld séu tilbúin að koma til móts við verslunarkeðjuna. Í tilkynningunni kemur fram að af svörum ráðherra að dæma virðast stjórnvöld ekki vera því mótfallin að veita Costco tilteknar undantekningar.

Samtök verslunar- og þjónustu vilja því benda á að undanfarin ár hafi þau barist fyrir auknu frelsi í viðskiptum fyrirtækja í landinu, neytendum til hagsbóta. Meðal þeirra baráttumála sem SVÞ hafa lagt áherslu á eru þau sem hefur verið fjallað um í tengslum við Costco, þ.e. heimild til að selja áfengi í verslunum, breytingar á lyfjamarkaði og sveigjanleiki varðandi innflutning á landbúnaðarvörum. „SVÞ munu fylgjast náið með framvindu þessa máls og hvetja samtökin stjórnvöld til góðra verka er varðar breytingar á innlendu regluverki til að auka frjálsræði í viðskiptum og efla samkeppni á innlendum markaði,“ segir í tilkynningunni.