Ólögmætt er að breyta lánasamningum afturvirkt með lögum, samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli hjóna gegn þrotabúi Frjálsa fjárfestingarbankans. Hjónin tóku fimm gengisbundin lán hjá bankanum á árunum 2004 og 2006. Þau töldu að í skuldabréfum sem gefin höfðu veri út af því tilefni væru ógildar skuldbindingar um viðmiðun lánsfjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla.

Hæstiréttur dæmdi lán sem þessi ólögmæt um mitt ár 2010 og samþykkti Alþingi skömmu fyrir áramót sama ár að færa slíkt í lög með það fyrir augum að leysa úr ágreiningi um það hvernig gera skuli upp gengistryggð lán. Lögin kváðu á um að við uppgjör lánanna skyldi miða við lægstu vexti sem Seðlabankinn ákveður á almennum verðtryggðum útlánum.

Gert var ráð fyrir að vextir myndu gilda aftur í tímann. Niðurstaða Hæstaréttar er hins vegar sú að ekki megi breyta ákvæðum lánasamninga afturvirkt með þessum hætti.

Þrír með sératkvæði

Þrír hæstaréttardómarar skiluðu sératkvæði í málinu. Í rökstuðningi þeirra segir að bankinn hafi átt viðbótarkröfu á hendur hjónunum vegna vaxta af láninu.

Í sératkvæðinu segir:

„Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðilum að þau geti annars vegar byggt á því að tilkynningar varnaraðila til þeirra um útreikning afborgana af höfuðstól lánsins með gengistryggingu hafi verið með þeim hætti að þau væru ekki bundin við að greiða þær, en á hinn bóginn teljist þau hafa fullgreitt vexti sem reiknaðir voru út í sömu tilkynningum þar sem gengisbindingin var bein forsenda fyrir útreikningi vaxtanna. Verður ekki talið að sóknaraðilar hafi haft, er þau greiddu afborganir sínar og varnaraðili tók við þeim án sérstaks fyrirvara, réttmæta ástæðu til að treysta því að vextirnir væru endanlega greiddir þó að sá þáttur skuldarinnar sem ótvírætt var forsenda fyrir útreikningi vaxtanna ætti eftir að sæta endurskoðun. Samkvæmt þessu er fallist með varnaraðila að hann hafi, þegar dómur Hæstaréttar 14. febrúar 2011 var genginn, átt kröfu um vangreidda vexti af láninu vegna liðins tíma.“

Dæmur Hæstaréttar