Óheimilt verður að krefjast svonefndra uppgreiðslugjalda af eftirstöðvum láns sé höfuðstóll þess undir fimmtíu milljónum og vextir breytilegir. Þetta er meðal þess sem viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, hyggst leggja til að Alþingi samþykki. Tillögurnar eru meðal niðurstaðna starfshóps ráðherra um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku. Niðurstöður hópsins voru kynntar á blaðamannafundi í dag.

Hópurinn lagði enn fremur til að seðilgjöld verði bönnuð. Einnig lagði hann til að óheimilt verði að innheimta svonefndan FIT-kostnað nema slíkt eigi sér stoð í samningi við viðskiptamenn. “Lagt er til að fest verði í lög að slíkur kostnaður skuli vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins,” segir í niðurstöðum hópsins.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að umræddar tillögur verði lagðar fram í frumvarpi um neytendamál. Hann hyggst leggja fram frumvarpið á Alþingi á næstunni. Stefnt er að því að það verði afgreitt frá Alþingi í vor.